139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessari spurningu frá hv. þingmanni skýrt. Ég tel að sú ákvörðun Alþingis að skipa stjórnlagaráð á rústum stjórnlagaþingsins, eigum við ekki að orða það svo, sé ekki ólögleg. Ég held að Alþingi sé heimilt lögum samkvæmt að gera það þrátt fyrir að þá séu menn komnir að mörkum þess að minnsta kosti sem 2. gr. stjórnarskrárinnar heimilar um þrígreiningu ríkisvaldsins vegna þess að með þessari tillögu er löggjafarvaldið í rauninni að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Það er ekki hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu. Kosningin var dæmd ólögmæt og kjörbréfin ógilt en Alþingi segir: Gott og vel, við ætlum samt sem áður að skipa þá 25 einstaklinga sem náðu kjöri en voru dæmdir ógildir í þessa nefnd.

Mig langar að spyrja hv. þingmann — á Alþingi eru reglulega kosnir menn og konur í ýmsar nefndir en það er venjulega gert með hlutfallskosningu, það er ekki lagt til í þessu tilviki: Telur hv. þingmaður að þá reglu ætti hugsanlega að viðhafa verði komið á stjórnlagaráði eins og lagt er til með þessari tillögu?