139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki fannst mér svarið alveg skýrt eða ég á eitthvað erfitt með að skilja það. Þingmaðurinn telur að þinginu sé heimilt að skipa stjórnlaganefnd og þingmaðurinn er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að gera tillögu að breytingu á stjórnarskrá. Um þetta erum við sammála. Ég sé því ekki alveg hver vandinn er nema þá ef vera skyldi hin almenna andstaða þingmannsins við hið áður áformaða stjórnlagaþing sem þingmaðurinn var mótfallinn allt frá upphafi.

Það er heldur ekki alveg rétt að halda því fram í ræðustóli að Hæstiréttur hafi dæmt þessa einstaklinga ógilda eins og hann orðaði það. (SKK: Kjörbréfið var ógilt.) Hæstiréttur dæmdi ekki nokkurn skapaðan hlut, það var stjórnarfarsnefnd á vegum Hæstaréttar sem ákvarðaði, það er ekki það sama og hæstaréttardómur. Hvernig hlítum við þeirri niðurstöðu sem fallin er? Maður gerir það (Forseti hringir.) með því að taka til greina ábendingar um úrbætur, laga það sem fór úrskeiðis. Niðurstaða kosningarinnar (Forseti hringir.) veltur ekki á hæð skilrúma, útliti kjörseðla eða lengd blýanta.