139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því að það væri mín skoðun að Alþingi væri auðvitað heimilt að skipa nefnd eins og þá sem hér er lagt til að gert verði. Ég tel reyndar að þar séu menn á mörkum hins lögmæta með hliðsjón af meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins, í ljósi þess sem gerst hefur. Ég er þeirrar skoðunar að það sé heimilt en algerlega galið að standa svona að málum.

Það var kosið til stjórnlagaþings. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosninganna bryti í bága við lög landsins. Kosningin var ógilt og kjörbréfin sömuleiðis. En til að bregðast við niðurstöðu réttarins, í stað þess að kjósa aftur eða fara aðrar leiðir, ætlar Alþingi að skipa þá einstaklinga sem voru (Forseti hringir.) hlutskarpastir í ógiltri kosningu með öðrum hætti. Með því er auðvitað ekki verið að gera neitt annað en að gefa æðsta dómstól landsins (Forseti hringir.) langt nef og það er ekki hægt að neita því.