139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að óska þingmanninum Sigurði Kára Kristjánssyni innilega til hamingju með ræðuna. Ég held að hann hafi með þessari ræðu sinni slegið Íslandsmet í útúrsnúningum.

Nú er það svo að ég hefði helst viljað kjósa aftur, mér hefði fundist langeðlilegast að fram færi svokölluð uppkosning, að kosið yrði um sömu frambjóðendur aftur. Þegar Icesave var vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu fannst mér eiginlega alveg kjörið að það yrði. Ég sat einn fund í þessari samráðsnefnd, í forföllum þingmannsins Birgittu Jónsdóttur, og þar kom alveg skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn mundi reyna eftir fremsta megni að leggja stein í götu þessa stjórnlagaþings eða -ráðs og mundi gera allt sem í hans valdi stæði til að reyna að tefja það ef við færum fram með frumvarp um uppkosningu. (BÁ: Ég er ósammála.) Ég gat ekki skilið þingmanninn Birgi Ármannsson öðruvísi, en ég spurði hann sérstaklega um þessi atriði, en að það yrði mikið talað … (BÁ: Svörin voru ekki svona. Segðu satt.) — Það er spurning hvort ég komi til að bera af mér sakir á eftir. (Gripið fram í: Þú skalt gera það.)

Ég vil spyrja þingmanninn Sigurð Kára Kristjánsson hvað hann telji hæfilegt að ganga langt til að eyðileggja framkvæmd þessa stjórnlagaráðs.