139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að ég held að hv. þingmaður geri of mikið úr valdi Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur 16 sæti á Alþingi af 63 og er þar af leiðandi ekki í stöðu til að taka ákvarðanir fyrir hönd alls þingsins.

Varðandi síðan hitt hverju ég vil breyta í stjórnarskránni þá eru þó nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að taka til skoðunar, t.d. að kveða á um þingræðisregluna með skýrum hætti. Ég vil að gerðar séu breytingar sem snúa að þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég vil að kaflinn um forseta lýðveldisins verði endurskoðaður og ég held að ekki væri úr vegi að í stjórnarskrá Íslands sé í það minnsta minnst á Hæstarétt Íslands en það er ekki gert í núgildandi stjórnarskrá svo að ég nefni einhver dæmi um það hverju má breyta.