139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

eldsneytisverð.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í síðustu viku var hér utandagskrárumræða um eldsneytisverð á Íslandi. Hæstv. fjármálaráðherra tók þátt í þeirri umræðu og skildi ekki eftir mikla von hjá þingheimi eða almenningi í þessu landi um að hann mundi grípa til aðgerða til að létta þær byrðar sem leggjast nú á almenning vegna síhækkandi olíuverðs í heiminum. Hann ætlaði að skipa nefnd.

Mig langar að bera málið undir forsætisráðherra sem hefur oft látið til sín taka í þeim málum sem þingmaður. Þannig var það t.d. á árinu 2006 þegar eldsneytisverð var mun lægra en í dag (Forseti hringir.) og menn óttuðust að verðið kynni að fara upp í 150 kr. Það gaf hæstv. núverandi forsætisráðherra tilefni til að koma hingað upp og skora á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir verðlagsáhrif af hækkunum eldsneytis, að hækkanir á olíu á heimsmarkaði og á útsöluverði á Íslandi mundu íþyngja heimilunum og einnig til að koma í veg fyrir að þeir kjarasamningar sem þá voru undir mundu lenda í einhverjum ógöngum. Öll þau skilyrði eiga við í dag nema hvað eldsneytisverðið er líklega um 60–70 kr. hærra á lítrann núna.

Ég vil því bera það undir hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji ekki ástæðu til að ganga mun lengra en fjármálaráðherra nefndi í síðustu viku og skipa nefnd til að skoða hvað gerist í framtíðinni. Það er dagurinn í dag sem skiptir máli. Á hverjum einasta degi fer fólk og fyllir á tankinn hjá sér, það finnur fyrir áhrifunum. Á hverjum einasta degi fara flutningabílar um landið með hærri kostnaði. Flutningskostnaðurinn leggst á þá sem búa á (Forseti hringir.) landsbyggðinni. Við verðum að grípa inn í núna og endurhugsa opinberar álögur á eldsneyti.