139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

hækkanir verðtryggðra lána.

[10:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að láta vera að fara í miklar umræður um hinar endalausu fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra um að skattar hafi í raun verið miklu hærri áður fyrr þrátt fyrir að sami ráðherra tali sífellt um að of lág skattlagning hafi ýtt undir þensluna. Líklega eru allar þær upplýsingar komnar úr sömu átt. En ég ætla að biðja hæstv. forsætisráðherra að svara spurningunni til tilbreytingar, að svara því sem ég spurði um, þ.e. áhrifin á skuldastöðu heimilanna. Áhrifin á skuldastöðuna eru jöfn eftir því hvort heimilin eiga mikið fjármagn eða ekki. (Gripið fram í.) Þar er um hlutfallsleg áhrif að ræða. Af því að hæstv. forsætisráðherra nefnir að verðbólgan hafi minnkað er það einfaldlega vegna þess að hagkerfinu hefur blætt út, það er allt stopp. Þess vegna hefur dregið úr verðbólgunni. Á meðan hefur ríkið stöðugt ýtt undir verðbólguna og hækkað skuldir heimilanna. (Forseti hringir.) Menn geta ekki einu sinni hækkað vöruverð vegna þess.

Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að gera til að ná niður skuldum heimilanna?