139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

málaferli um skipulag Flóahrepps.

[10:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Sú niðurstaða hæstv. umhverfisráðherra að synja staðfestingar á skipulagi vegna Urriðafossvirkjunar hefur vakið miklar umræður hér og verið umdeild, ekki síst í kjölfar þess að Hæstiréttur dæmdi þá ákvörðun ólögmæta.

Nú hafa komið fram upplýsingar á vegum umhverfisráðuneytisins sem benda til þess að embætti ríkislögmanns, sem er það embætti sem fer með lögfræðilega ráðgjöf til ríkisins vegna málaferla fyrir dómstólum, lagðist gegn því að hæstv. umhverfisráðherra áfrýjaði dómi héraðsdóms í því máli. Ekki verður önnur ályktun dregin af þeim gögnum sem nú hafa verið birt en að hæstv. umhverfisráðherra hafi beinlínis og meðvitað ákveðið að ganga gegn ráðgjöf þess embættis sem sérstaklega hefur það hlutverk að vera ráðuneytum, ráðherrum og öðrum aðilum ríkisins til ráðgjafar um það hvernig beri að halda á málum fyrir dómstólum.

Ég spyr því hæstv. umhverfisráðherra: Hvaða forsendur lágu að baki því að hæstv. ráðherra komst að annarri niðurstöðu um þetta en ríkislögmaður? Kann að vera að þar hafi búið að baki sá pólitíski vilji hæstv. umhverfisráðherra sem oft hefur komið fram að setja steina í götu þeirra framkvæmda sem þarna var verið að fjalla um?