139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

nýtt mat skilanefndar Landsbankans.

[10:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við sáum annaðhvort í gær eða fyrradag sérstaka sýningu, sem ég vil kalla svo, í fjármálaráðuneytinu þegar samninganefndin í Icesave-samningunum tók að sér að kynna nýtt mat á eignasafni Landsbankans. Ég man ekki til þess að sá er hér stendur hafi veitt samninganefndinni eitthvert umboð til að vera um leið PR-nefnd eða kynningarnefnd fyrir ríkisstjórnina eða þá sem vilja styðja þetta samkomulag. Þetta var mjög athyglisvert.

Á þessum kynningarfundi kom fram hjá samninganefndinni, eða þessari nýju auglýsinganefnd ríkisstjórnarinnar, að mat á eignasafninu hefði batnað mjög mikið. Nú má vissulega færa fyrir því rök að það hafi batnað, en þannig er að í mars 2010 var þetta eignasafn metið á 1.172 milljarða kr. Í desember 2010 var matið komið niður í 1.132 milljarða kr. Það lækkaði sem sagt í millitíðinni. Síðan kemur núna nýtt mat, sem við hljótum að sjálfsögðu að fagna, upp á 1.175 milljarða eða svo. Hækkunin á matinu frá því í mars 2010 og til þessa nýja mats er ekki mjög mikil þegar að er gáð.

En hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að sveiflurnar í þessu máli og óvissan eru alveg gríðarlegar, (Gripið fram í: Það segir okkur …) sýnir okkur ekkert annað en að enn er gríðarleg óvissa til staðar í þessu máli. Í þetta fyrra skipti sem ég hef tækifæri til að ræða við hæstv. ráðherra langar mig að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif sú frestun sem síðan var tilkynnt á útgreiðslum úr þessu eignasafni hefur á vaxtagreiðslu ríkissjóðs. Hversu mikið hækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs við það að fresta þessum (Forseti hringir.) greiðslum um tvo mánuði? Það hlýtur að hafa verið reiknað.