139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

nýtt mat skilanefndar Landsbankans.

[10:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni kynningu samninganefndarinnar á tölum um betri endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans. Ég held að það hljóti að skipta máli fyrir þjóðina að fá að heyra fréttir um raunsætt mat á því hvað fáist upp í þessar kröfur. Ég held að það hafi efnisleg áhrif á afstöðu fólks til þess samnings sem nú liggur fyrir að þjóðin mun greiða atkvæði um. Mér finnst ekkert óeðlilegt við að samninganefndin kynni útreikninga sína, enda lágu útreikningar samninganefndarinnar til grundvallar í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu inn í þingið. Samninganefndin hafði forræði á útreikningunum sem lagðir voru fram í þinginu og því mjög eðlilegt að samninganefndin endurmeti núna horfurnar í ljósi nýrra upplýsinga um endurheimtur.

Auðvitað eru endurheimturnar alltaf einhverri óvissu undirorpnar. Það fer eftir mati á eignaverði. Blessunarlega eru núna bjartari horfur fram undan og góður líkur á að kostnaður þjóðarinnar vegna Icesave-samninganna verði hverfandi. Í grunninn stöndum við alltaf frammi fyrir því mati hvort við viljum ljúka þessu máli nú með samningum eða taka áhættu af frekari dómsmálum, tefja úrlausn málsins með ærnum tilkostnaði fyrir íslenskt þjóðlíf. Það eru vogarskálarnar sem við verðum öll að meta þetta mál á.

Varðandi spurningar um bein áhrif frestunarinnar á greiðsluferilinn eru það atriði (Forseti hringir.) sem hafa verið reiknuð í fjármálaráðuneytinu og ég hef því miður ekki haldbærar upplýsingar um.