139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Á tímum eins og þeim sem við nú lifum eftir efnahagshrunið með 14 þúsund manns á atvinnuleysisskrá, menn sem enn eru í roti á efstu hæðinni í fyrirtækjunum og víða ósátt í byggðum með þróunina, en ungt fólk horfir á framtíðina með spurn í augunum, þá er ekkert skrýtið að stjórnmálamenn og forustumenn í héraði leiti að einhverri stórri og snöggri lausn, einhverjum þeim hókus-pókus sem útvegi atvinnu og færi kjark og bjargi byggðum allt í einu.

Gallinn er sá, forseti, að slíkar lausnir eru aðallega ekki til og á tímum eins og okkar skiptir umfram allt máli að menn haldi jafnvægi og hugsi út fyrir kjörtímabilið og stefni að þeim kostum sem reynast best í bráð og í lengd.

Forseti. Það var á sínum tíma deilt um þá ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur, hv. þingmanns og þáverandi umhverfisráðherra, að setja áformaðar framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í sameiginlegt umhverfismat. Nú, þegar matið er komið, hafa þær raddir hljóðnað. Matið sýnir að (Gripið fram í.) þessar hugmyndir voru óraunhæfar og hefðu spillt mjög landkostum …

Forseti. Mér skilst að þingmenn fái tækifæri hér á eftir til að taka þátt í umræðunni og það væri gott að þeir (Gripið fram í: Ekki Tryggvi Þór.) gerðu það þá. Ekki hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, flokkur hans hefur ekki leyft honum að taka þátt í þessari umræðu en það getur ekki komið niður á mínum tíma hér. (Gripið fram í.)

Matið sýnir að þessar hugmyndir voru óraunhæfar og hefðu spillt mjög landkostum og framtíðarmöguleikum í héraðinu. En í staðinn heyrast aðrar raddir, sameiginlega matið skiptir engu máli og það er úrelt, nú séu uppi allt önnur áform og ég held að það sé í dag, eða í gær, sem var fundað vestan hafs um álver upp á 250 þús. tonn í stað 360 þús. tonna og látið eins og þar sé fjármunur en ekki bita.

Sameiginlega matið var í fernu lagi, það voru athuguð virkjunarsvæðin við Kröflu og Þeistareyki, álversrekstur á Bakka við Skjálfanda og umfangsmiklar línulagnir þarna á milli. Í símskeytastíl eru niðurstöðurnar þær að ekkert mat liggur fyrir, engar rannsóknir um sjálfbærni svæðanna og miklar efasemdir koma fram um vinnsluhraðann. Það er talið verulegt umhverfistjón að línulögninni en álverið sjálft er eiginlega minnsta málið í þessu þótt koltvísýringslosun aukist um 14% við þá framkvæmd. Framkvæmdirnar hefðu, með leyfi forseta, úr 1. kafla álitsins „veruleg áhrif á stóru svæði og miðað við markmið framkvæmdanna er mannvirkjum þeirra ætlað að standa til langs tíma og verða áhrif þeirra því varanleg og að stórum hluta óafturkræf. Framkvæmdirnar munu skerða 17.000 ha af ósnortnum víðernum, sem eru mikilvægt aðdráttarafl í ferðaþjónustu og útivist. Í heildina munu framkvæmdirnar valda röskun á 438 ha lands, skerða 130 ha eldhrauna sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, skerða 370 ha af grónu landi og þar af rúmlega 38 ha af votlendi sem nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum auk þess sem hátt í 100 fornminjar verða í mikilli hættu vegna framkvæmdanna og stór hluti þeirra raskast varanlega.“

Þá er að spyrja sig: Leiða niðurstöður matsins til þess að ekkert verði hægt að vinna úr þessari orku úr Þingeyjarþingi og að menn eigi að gleyma öllum framkvæmdahugleiðingum? Nei, það tel ég ekki vera. Við eigum að geta nýtt hluta af þessum mikla krafti Þingeyjarþings, héraðsmönnum og Íslendingum öllum til hagsbóta, með sjálfbærri nýtingu og af fyllstu varúð gagnvart auðlindinni, með virðingu fyrir náttúruverðmætum og þeim atvinnuvegum sem á henni byggja og með skynsamlegu viti í markaðsmálum og samningum við orkunotendur. Við eigum að gleyma stóru álversdraumunum og leggja áherslu á verksmiðjur og starfseiningar sem nýta minni orku, stefna eins og sumir segja á litlu, sætu stóriðjuna og við eigum að reyna allt sem hægt er til að koma hinum orkufreka iðnaði sem næst orkuuppsprettunni til að losna við umhverfisspjöll á þingeyskum víðernum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Álver upp á 360 þús. tonn er auðvitað úti samkvæmt matinu og nú mega menn ekki láta blekkja sig með því að lækka framleiðslutöluna, að það eigi að byggja hálfver, t.d. upp á 250 þús. tonn. Allir sem eitthvað þekkja til vita að sá sem reisir álver við Húsavík eða annars staðar á Íslandi stefnir að því að ná hagkvæmri rekstrareiningu þótt síðar verði. Sú stærð hefur um nokkra hríð verið talin um 400 þús. tonn en nú berast fréttir um að þessi hagkvæmnismörk séu við 700 þús. tonna markið (BJJ: Já!) sem samsvarar tveimur Reyðarfjarðarálverum. (Gripið fram í: Hver segir það?) Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Það er óábyrg pólitík, forseti, að halda áfram í þessa átt eftir þróun síðustu ára og þegar nú liggur fyrir það álit Skipulagsstofnunar sem raun ber um vitni að loknu sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum. Og ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra hafi skoðað málin í þessu ljósi (Forseti hringir.) og sé mér sammála um þetta.