139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er merkilegur órói í salnum út af þessu máli en ég vona að við getum átt hér yfirvegað samtal um þetta mikilvæga mál vegna þess að það skiptir máli að við ráðumst í myndarlega uppbyggingu á þessu svæði og það sem allra fyrst. Það skiptir líka mjög miklu máli, eins og ég hef áður lýst í þessum stól, að við fáum sem mest verðmæti fyrir þær auðlindir sem þarna er ætlunin að nýta í framtíðinni, fyrir norðan, og það hef ég stutt.

Virðulegi forseti. Haustið 2009 var horfið frá þeirri stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar að einblína á eingöngu á einn kaupanda og gera viljayfirlýsingar við einn mögulegan kaupanda að orkunni þarna fyrir norðan. Því var skipuð verkefnisstjórn sem ætlað var að skoða fleiri kosti, og líka auðvitað til að vekja athygli á svæðinu. Það eru góðar fréttir sem hafa komið út úr þeirri vinnu en áhugi á svæðinu hefur svo aldeilis verið að glæðast. Núna er Landsvirkjun í virkum viðræðum við sex til átta mögulega kaupendur, t.d. metanólverksmiðju í nágrenni Kröflu, þarna er um að ræða fyrirtæki í málmframleiðslu, efnavöruiðnaði og eldsneytisframleiðslu, utan álfyrirtækja. (Gripið fram í: Bull.) Nýtt aðalskipulag fyrir Norðurþing var staðfest af umhverfisráðherra í desember 2010, sveitarfélögin eru að leggja lokahönd á aðalskipulagsvinnu þar sem gert er ráð fyrir nauðsynlegum innviðum vegna uppbyggingar og atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum hefur verið staðfest og síðast en ekki síst hefur sameiginlegu umhverfismati nú verið lokið og það skiptir gríðarlega miklu máli. Þar fáum við mjög mikilvægar upplýsingar til þess að verkefnið geti haldið áfram og þá á þeim nótum sem raunhæfar eru.

Meginniðurstaðan er því sú að öll umgjörð sem nauðsynleg er fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Norðausturlandi er til staðar ef frá er talin uppbygging ákveðinna innviða, svo sem hafnargerð, vegaframkvæmdir og raforkudreifikerfi, að því undanskildu er annað fyrir hendi. Því er komið að því núna að láta reyna á orkusölusamninga við þá aðila sem Landsvirkjun er í viðræðum við og við þá sem hafa lýst áhuga. Það er mjög mikilvægt að náin samvinna sé höfð á milli allra þeirra aðila sem að málinu þurfa að koma. Orkusamningar eru viðskiptasamningar og þess vegna er mikilvægt að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki fái sem hæst orkuverð til hagsbóta fyrir eigendur sína sem eru auðvitað þjóðin sjálf.

Þetta sameiginlega umhverfismat fjallaði um 346 þús. tonna álver sem lýsti áhuga eða áformum framkvæmdaraðila um stærð á verksmiðju. Viljayfirlýsing sem forveri minn í starfi, framsóknarmaðurinn Valgerður Sverrisdóttir, skrifaði undir fjallaði um 250 þús. tonna álver þannig að þarna hefur verið töluvert misræmi. Ég tel að stjórnvöld hafi aldrei séð fyrir sér 350 þús. tonna álver að þessu leyti, en ég held að það skipti máli að við horfum raunsætt á málin og miðað við þetta umhverfismat og þær upplýsingar sem liggja fyrir um getu svæðisins er hægt að segja að ef samningar nást á morgun um sölu á þessari orku getur tekið upp undir heil tíu ár að skala upp þessa framleiðslu. Menn geta verið nokkuð vissir um að innan fimm ára sé hægt að ná þarna í um 200 megavött en það er erfitt að segja til um framtíðina. Það er ekki stjórnmálamanna að standa og ákveða magn orkunnar í jörðu, sérstaklega jarðvarmans, heldur eru það sérfræðingar sem leggja á það mat en svo verður það náttúran sem svarar okkur því á endanum.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að tryggja hagstætt orkuverð, að verkefnið standist allar þær kröfur sem settar eru, skapi verðmæt störf og að sú uppbygging sem verður fyrir valinu verði í sátt við umhverfið og samfélagið allt. Það er ekki stjórnmálamanna að halda með einstaka fyrirtækjum í þessari umræðu, heldur eigum við að fagna því að það sé komin virk samkeppni á svæðinu um að fá að nýta þessa orku af mismunandi fyrirtækjum og ég held að það hljóti að vera góðar fréttir. Ég hef fulla trú á því að orkan í Þingeyjarsýslum muni nýtast skynsamlega til atvinnuuppbyggingar á svæðinu og það verður að hafa í huga að þetta er langtímaverkefni.

Virðulegi forseti. Enn og aftur ítreka ég að það skiptir öllu máli að við stjórnmálamenn séum með báða fætur á jörðunni í þessum efnum og förum ekki að fylkja hér liði (Forseti hringir.) með eða á móti einstaka kaupanda á meðan Landsvirkjun stendur í samningaviðræðum við sex til átta mismunandi aðila. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)