139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:25]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér umhverfi sameiginlegs umhverfismats. Eðli málsins samkvæmt er alveg sjálfsagt mál að öll áhrif af svona stórum framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru séu metin sameiginlega. Það er ekkert einkamál einstakra sveitarfélaga eða landshluta þegar kemur að svona gríðarlegum framkvæmdum.

Það þarf að skoða þessi mál í stóra samhenginu og sjá hvaða áhrif þetta hefur til langframa. Á Íslandi vantar tilfinnanlega að þætta saman langtímanáttúruverndaráætlun til áratuga, 30, 40, 50 ára, sem getur verið til hliðsjónar við afgreiðslu t.d. rammaáætlunar og annarra ætlaðra framkvæmda á auðlindasvæðum.

Þeistareykir eru ekki einkamál Húsvíkinga eða annarra Þingeyinga, ekki frekar en önnur landsvæði. Virkjun á þessu svæði er mál allra Íslendinga. Virkjun jarðhita til raforkuframleiðslu er ávísun á gríðarlega sóun. (Gripið fram í.) Við höfum það t.d. fyrir satt að 86% af þeirri orku sem virkjuð er af jarðvarma til raforkuframleiðslu fara út í loftið, verða að engu. Það þarf að finna leiðir til að nýta þessa orku af meiri skynsemi en þetta. Það er ekki nóg að moka bara pottinn ofan af og láta hitt fara út í loftið. Það er sóun.

Jarðvarmavirkjanir hafa gríðarleg áhrif á umhverfið eins og sést vel á Hellisheiði þar sem geysilega fögur víðerni, fjöll og náttúra eru horfin bak við rör, virkjanahús og gufumökk. Fyrirtækið sem stóð fyrir því öllu saman er farið á hausinn. Er þetta sú framtíð sem menn sjá fyrir sér, að æða áfram á Þeistareykjum í þessum sama farvegi og gert var á Hellisheiðinni? Það er einfaldlega ekkert einkamál heimamanna, en það er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt að orkan sem verður virkjuð þarna (Forseti hringir.) verði nýtt á svæðinu. Það er ekki nema eðlilegt en það þarf að gera það af skynsemi, af meiri skynsemi (Forseti hringir.) en notuð hefur verið hingað til.