139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:30]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Merði Árnasyni, fyrir að hefja þessa umræðu. Það er nefnilega mikilvægt að sjá hana í dálítið víðara samhengi. Eins og ég sé það erum við í rauninni að tala um atvinnusköpun í sátt við umhverfið. Við erum að tala um það hvernig við ætlum að nýta auðlindir þessa lands til frambúðar. Þá verðum við að horfa á stóru myndina, þá getum við ekki bara horft á tilteknar verksmiðjur, t.d. tiltekna grænmetisframleiðendur eða tiltekna bændur. Við verðum að horfa á alla stóru myndina, alla þá atvinnustarfsemi sem er eða mun fyrirsjáanlega verða á viðkomandi svæði.

Við verðum líka að átta okkur á því að nýjar rannsóknir á nýtingu á háhitasvæðinu sýna að það er alls ekki sjálfgefið að stórfelld orkuöflun á þessum svæðum sé sjálfbær til lengri tíma litið. Við getum ekki leyft okkur að fara af stað með stórfellda röskun á svæðum án þess að hafa a.m.k. einhverja haldbæra og góða hugmynd um það hvað er í gangi. (Gripið fram í.) Við verðum líka að skoða möguleikana á orkuvinnslu í þágu grænnar atvinnustarfsemi og horfa til þess að við erum núna að tala um að hefja beint flug í meira mæli norður til Akureyrar til að efla ferðaþjónustu á því svæði. Þá getum við ekki á sama tíma verið að tala um að við ætlum að raska, í tiltölulegu hugsunarleysi skulum við segja, mjög stórum svæðum sem þessir sömu ferðamenn kynnu að hafa áhuga á að skoða. (Gripið fram í: Rétt.)

Ég bendi á árangurinn sem hefur t.d. náðst af uppbyggingu kringum jarðböðin við Mývatn, þá uppbyggingu sem hefur orðið af margs konar annarri ferðaþjónustu á Norðausturlandi sem meðal annarra fjölmiðlamaðurinn Simon Calder flutti erindi um fyrir norðan núna um helgina. Þessa þætti verðum við alla að skoða og við verðum að komast upp úr þessum hjólförum (Forseti hringir.) stóriðjulausna. Sjálfbær orkunýting í þágu grænnar atvinnustarfsemi er til lengri tíma litið miklu skynsamlegri (Forseti hringir.) kostur og til farsældar fyrir allt atvinnulíf án röskunar.