139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta og skýra ræðu. Ég tek undir viðhorf hans til Hæstaréttar og virðingu fyrir þeim dómi sem hefur bjargað og á að bjarga borgurum gegn ofurvaldi bæði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég tek líka undir það að stjórnarskrá semur maður ekki í flaustri. Maður vinnur rólega að henni og það á að vera mikil samstaða um það verk.

Í núverandi 79. gr. stjórnarskrárinnar er gert ráð fyrir því að þegar tillaga kemur fram um breytingu á stjórnarskrá skuli rjúfa þing og boða til almennra þingkosninga. Þegar þessi tillaga kemur fram verður aldrei kosið um hana beint og ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé óeðlilegt að þjóðin greiði aldrei atkvæði um sína eigin stjórnarskrá. Er ekki eðlilegra að breyta 79. gr. fyrst, rjúfa þing, koma með nýtt þing og leggja þá tillöguna um nýju stjórnarskrána (Forseti hringir.) strax fram án þess að þurfa að rjúfa þing?