139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með engum hætti er það ósamræmanlegt að fara að sannfæringu sinni og þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur einfaldlega verið sannfæring stórs hluta þingheims að um tiltekið málefni eins og stjórnarskrá lýðveldisins sé rétt að afsala sér ákvörðunarvaldinu til þjóðarinnar, láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu og staðfesta síðan niðurstöðu hennar í þinginu. Ég held ekki að við þurfum að breyta stjórnarskránni fyrst til að ná þessu fram. En ég fagna því að frá öðrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins komi skýrt og greinilega fram eindreginn vilji til þess að það sé þjóðin sjálf sem með beinum hætti fái að ráða þessu máli til lykta. Ef það er sannfæring manna í öllum þingflokkum á Alþingi er vel hægt að leysa þetta mál betur en hér er gert ráð fyrir.