139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einfalt að svara því. Nei, ég tel ekki að gera þurfi róttækar breytingar. Einhverjar breytingar þarf að gera, eðli málsins samkvæmt, vegna þess úrskurðar sem féll og til að tryggja að framkvæmdin geti orðið þannig að fullur og alger sómi sé að, en ég tel að sá rammi sem hér var settur af þinginu hafi að mörgu leyti verið mjög veglegur. Þó að sjálfstæðismenn hafi verið ósammála leiðinni var ágreiningur um grundvöllinn sjálfan ekki meiri en svo að það var aðeins einn varaþingmaður sem greiddi atkvæði gegn þeirri tilhögun.

Mér sýnist hins vegar að því miður stefni í miklum mun meiri ágreining um þessa leið og ég held að það sé ekki góð byrjun á þessum leiðangri.