139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:44]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að Hæstiréttur kvað upp ákveðinn úrskurð og eins og við á um það sem kemur frá Hæstarétti ber að fara eftir því þó að menn séu ósammála forsendunum. Það kemur mjög skýrt fram í allri þeirri umfjöllun sem hér er, um frumvarpið um stjórnlagaráðið, að ekki er verið að fara fram hjá Hæstarétti, ekki er verið að brjóta lög, þetta er engin skemmri skírn. Þetta er fyllilega lögmæt og að mínu mati eðlileg aðferð vegna þess að umræddir einstaklingar voru valdir af yfir 80 þúsund Íslendingum. Menn hafa sagt að of fáir hafi greitt atkvæði en það er nú einfaldlega þannig í kosningum. Það er óeðlilegt að þeir sem sitja heima í sófa og nenna ekki á kjörstað hafi áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, það er í fyllsta máta óeðlilegt. Þó að eingöngu 36% hafi haft áhuga á því að greiða þessu atkvæði ógildir það ekki að neinu leyti lögmæti stjórnlagaþingsins sem kosið var.

Ógilding Hæstaréttar var á mjög einkennilegum og tæknilegum nótum að mínu mati og það hefur skýrt komið fram að það er ekkert við talningu atkvæða sem hefur leitt í ljós að niðurstaðan yrði með nokkru móti önnur en við sitjum uppi með í dag. Þess vegna er þessi leið fær og eðlileg út úr því. Það er einfaldlega óþarfi að fara af stað með annaðhvort aðra kosningu frá upphafi eða uppkosningu.

Hv. þingmaður talaði aðeins um að erfitt hafi verið að velja á milli yfir 500 manns og ég er sammála því. Það var svolítil vinna fólgin í því. En ég hef aldrei kosið með glaðara hjarta en þá því að ég hafði úr nógu mörgum hæfum frambjóðendum að velja. Það hef ég aldrei nokkurn tíma haft í kosningum fyrr á Íslandi.