139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:48]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að kynning á frambjóðendum fyrir kosninguna til stjórnlagaþingsins hefði mátt vera betri og meiri og yfirvegaðri. Hún lenti að miklu leyti í einhverjum tilviljanakenndum aðferðum einstakra fjölmiðla þar sem menn voru spurðir ákveðinna spurninga og það svöruðu þeim ekki allir. Það hefði þurft lengri undirbúningstíma, meiri og betri kynningu og víðtækari kynningu á skoðunum þeirra allra. Vissulega hefði það mátt fara betur. En ég átti ekki í neinum vandræðum með að velja þá, það tók einfaldlega tíma. Ég var með ákveðnar hugmyndir um hvaða breytingar mér fannst mikilvægastar á stjórnarskránni og ég valdi frambjóðendur mína eftir því. Ég raðaði þeim svo að loknum kosningunum, þessum 25, á skala þar sem ég gaf þeim einkunn frá 1–10 hvað varðar viðhorf mitt til nýrrar stjórnarskrár. Meðaleinkunnin var 7,2 og ég má því vel við una við niðurstöðu kosninganna. Þannig fór ég að þessu.

Hvað varðar dóma Hæstaréttar þá var þetta náttúrlega ekki dómur, þetta var úrskurður, einhvers konar stjórnsýsluúrskurður um tæknilega annmarka á kosningu sem Hæstiréttur notaði til að ógilda kosninguna, um kjörseðla, kjörklefa og þess háttar. Ef menn eru ósáttir við dóma Hæstaréttar og telja að dómar Hæstaréttar hafi byggt á lögum sem þurfi að breyta, fara menn yfirleitt af stað og breyta þeim lögum í kjölfarið. Það er einfaldlega þannig sem löggjafarvald virkar þegar um þrískiptingu valds er að ræða. Menn geta verið sammála eða ósammála því en þannig er það bara gert. (Gripið fram í: Í samræmi við …) Ekkert endilega, menn breyta bara lögunum ef þeir telja að forsendur sem Hæstiréttur hafi gefið sér hafi verið rangar. Það eru engir hæstaréttardómar óumdeildir.

En hér, eins og kemur skýrt fram í öllu þessu máli, er ekkert verið að fara fram hjá úrskurði Hæstaréttar eða lítilsvirða hann með neinum hætti. Þetta er bara eðlilegt framhald á málinu og þeirri stöðu sem það var komið í.