139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:53]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og flutningsmaður þessarar tillögu er á svipuðum nótum og ég hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég held að það mundi auka vægi stjórnlagaráðsins og auka vægi málsins til mikilla muna ef það færi fyrst til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Þegar farið var yfir verklagsreglur stjórnlagaþingsins á sínum tíma kom skýrt fram í þeim verklagsreglum að stjórnlagaþingið sem þá var átti að senda tillöguna beint til Alþingis, og þegar gerðar voru athugasemdir við þær verklagsreglur var okkur svarað á þeim nótum að þetta væri í greinargerð og að á Alþingi stunduðu menn ekki neina greinargerðarlögfræði.

Ég hafna svoleiðis málflutningi að sjálfsögðu. Það er mjög skýrt í framhaldsáliti allsherjarnefndar og ræðu formanns á sínum tíma hvaða álit allsherjarnefnd hafði á þessu máli og ég vona einfaldlega að því verði haldið til haga. Það er svo spurning hvort gera þurfi ráð fyrir fjárveitingu ef fram kemur sterkari krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu í meðferð allsherjarnefndar. Eitt af þeim svörum sem við fengum var að stjórnlagaþingið hefði ekkert fjárveitingavald og þess vegna mundi þetta ekki fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það eru svona mál sem væri ágætt að fá frekari umræðu og hugmyndir um áður en málið er endanlega klárað í sölum þingsins. En það er í ágætisfarvegi, finnst mér, og ég fagna þeirri miklu umræðu sem er um málið. Það sýnir bara að menn hafa mikinn áhuga á því hvernig ný stjórnarskrá verður búin til.