139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Krafa um lýðfrelsi og endalok kúgunar og ánauðar berst nú á ógnarhraða í bylgju um arabaheiminn, einkum í norðanverðri Afríku. Einræðisherrar til áratuga falla af stalli hver af öðrum og heimsbyggðin fylgist með byltingarástandi sem vonandi mun leiða af sér þjóðfélagsbreytingar á næstunni. Í Egyptalandi og Túnis hrökkluðust stjórnarherrar frá völdum, í Alsír, Jemen, Jórdaníu og Barein eru háværar kröfur um lýðræðisumbætur sem stjórnvöld taka að einhverju marki svo alvarlega að koma verði til móts við þær.

Grundvöllur réttlátrar reiði hinna arabísk-múslimsku þjóða er ekki af trúarlegum rótum, heldur virðist hann einkum vera eins konar arabísk bylting af veraldlegum toga og þessir atburðir koma alþjóðasamfélaginu í opna skjöldu. Lýðræðisbylgjan á ekki síst rætur í hinni ungu kynslóð sem getur illa sætt sig við þá tjáningar- og skoðanakúgun sem viðgengist hefur en eini gluggi þeirra út í heiminn hefur verið tölvuskjárinn. Þannig hefur veraldarvefurinn sem í sumum tilvikum hefur verið lokað á tengt saman fólk sem þráir tjáningarfrelsi og sem er staðráðið í að láta drauma sína rætast.

En um leið og við horfum með aðdáun á þrautseigju og baráttuþrek almennings í Egyptalandi fyllumst við skelfingu og viðbjóði yfir viðbrögðum Líbíustjórnar og Gaddafís sem sveifst einskis til að halda illa fengnum völdum og auði og notar hersveitir sínar til að strádrepa almenna borgara, notar til þess vopn sem vesturveldin hafa selt honum.

Á sama tíma og uppreisn almennra borgara er í algleymingi voru nú alveg nýverið, þ.e. í síðustu viku, undirritaðir vopnasölusamningar fyrir milljarða dollara á stærstu svokölluðu varnar- og vopnasýningu í Miðausturlöndum í Abú Dabí. Á tímum niðurskurðar og kreppu er ekkert lát á vopnaviðskiptum, á árabilinu 2005–2009 jukust viðskipti með vopn um 22% miðað við næsta fjögurra ára tímabil á undan, þar af var aukningin milli 2008 og 2009 um 8%. Bandaríkin, Frakkland, Kína, Þýskaland, Bretland, Ítalía, Holland og Rússland eru stærstu vopnasöluríkin til Miðausturlanda og Norður-Afríku.

Ef skoðuð eru vopnaviðskipti Evrópusambandsríkja til Líbíu sérstaklega, eftir að vopnasölubanni var aflétt árið 2004, nema heildarvopnaviðskiptin árin 2005–2009 rúmlega 830 milljónum evra til Líbíu einnar og var aukningin milli áranna 2005 og 2009 nær fimmföld.

Í mörgum tilvikum veita vesturveldin þróunaraðstoð til þessara ríkja sem síðan er einkum nýtt til vopnakaupa frá þeim sömu ríkjum og þróunaraðstoðina veita. Vestrænir þjóðarleiðtogar hafa ekki hikað við að faðma þá Mubarak og Gaddafí þegar vel hefur staðið á og nýtt sér vinfengi við þá til að tryggja pólitíska, hernaðarlega og efnahagslega hagsmuni sína í þessum heimshluta. Verður ekki hjá því komist að nefna olíuna sérstaklega í því samhengi.

Þrátt fyrir að eins konar samtrygging þagnarinnar hafi einkennt afstöðu innan þeirra ríkja sem stórtækust eru í vopnasölu blasir tvískinnungurinn og hræsnin við og er raunar orðið að umræðuefni í gagnrýnum fjölmiðlum austan hafs og vestan. Þar er nú kviknuð grundvallarumræða varðandi sölu vopna til Líbíu sérstaklega og eins siðferðið í því að hagnast á sölu skriðdreka, flugskeyta og orrustuþotna til Gaddafís sem svo beitir þeim gegn borgurum sínum. Og þá er eðlilega spurt hver sé ábyrgð vestrænna ríkja gagnvart almennum borgurum sem nú eru fórnarlömb ofbeldisverka og vígtóla einræðisherrans Gaddafís og annarra þvílíkra. Hvernig gerir alþjóðasamfélagið mest gagn? Er líklegt að hernaðaríhlutun, t.d. loftárásir, þjóni hagsmunum almennings? Væri þá rétt að hafa hugfast mislukkaðan og dýrkeyptan lofthernað í Írak og á Balkanskaga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég tel mikilvægt að við Íslendingar mótum afstöðu til ástandsins í arabaheiminum og hugsanlegra viðbragða alþjóðasamfélagsins við því, byggða á grundvallarhugsjónum okkar um frið, jafnrétti og mannréttindi. Ég vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. utanríkisráðherra í nokkrum mikilvægum þáttum í því máli sem hér er til umræðu.

Hvert er viðhorf utanríkisráðherra til stórfelldrar vopnasölu vestrænna ríkja til einræðisherra, m.a. í arabalöndum undanfarna áratugi?

Hvernig samrýmist boðskapur vesturveldanna nú þeirri stöðu þeirra að hagnast pólitískt, hernaðarlega og efnahagslega á vopnaviðskiptum við einræðisríki sem hafa svo einmitt notað þau viðskipti til að beita almenning ofbeldi og kúgun?

Telur utanríkisráðherra koma til álita að styðja hugsanlega hernaðaríhlutun ríkja Atlantshafsbandalagsins í Líbíu?

Hver er að mati ráðherra ábyrgð vestrænna ríkja við að tryggja öryggi íbúa Líbíu og við að byggja samfélögin í arabaheiminum upp eftir áratuga langa kúgun og einræði?

Hver er aðkoma íslenskra stjórnvalda að vinnu við gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasamnings á vettvangi Sameinuðu þjóðanna?

Hafa íslensk stjórnvöld haldið fram því sjónarmiði að tryggt verði að samningurinn endurspegli alþjóðlega viðurkennd mannréttinda- og mannúðarlög?

Ég vonast, frú forseti, til þess að jafnvel þótt þessar spurningar séu viðamiklar, umfangsmiklar, myrkvist málið nú ekki í huga hins vaska utanríkisráðherra og vænti greinargóðra svara.