139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni varðandi fordæmingu hans á framferði fyrrverandi einræðisherra sem nú hafa verið að hrökklast frá völdum í Norður-Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Hv. þingmaður reisir mjög móralska spurningu þegar hann segir sjálfur að við höfum horft upp á það í gegnum fregnir fjölmiðlanna að einræðisherrann Gaddafí í Líbíu og herir hans, málaliðar marineraðir úr stríðum Afríku, hafi með vestrænum vopnum stráfellt uppreisnarmenn. Og hann spyr: Er hugsanlegt að til greina komi að vesturveldin hlutist til um þessa atburðarás? Þegar hv. þingmaður segir að hann sjálfur gjaldi varhuga við því með vísan til fortíðarinnar, og nefndi þar ákveðin dæmi, kalla þingmenn fram í: Heyr, heyr. Þetta vekur þá mórölsku spurningu hvað vesturveldin eigi að gera þegar þau standa andspænis því að fólk sem brýst undan áratuga langri kúgun, er að brjótast fram gegn einræðisherrum sem beita málaliðum, sem beita flugvélum og þyrlum. Hvað eiga vesturveldin þá að gera? Ég get ekki annað, þrátt fyrir að vera friðarsinni og andvígur hernaði, en sagt: Svar mitt er já, það hlýtur að koma til álita að við komum fólki til hjálpar sem verið er með orðum hv. þingmanns að stráfella.

Hv. þingmaður spurði mig sömuleiðis um afstöðu Íslendinga. Ég vil að það komi algjörlega skýrt fram að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í hinu alþjóðlega samfélagi starfar þessi ríkisstjórn og örugglega hinar fyrri líka jafnan á grundvelli mannúðarlaga og mannréttinda. Það hefur verið rauði þráðurinn í öllu því sem við höfum gert. Og þessi ríkisstjórn sem nú situr hefur staðið í framlínu þeirra þjóða sem hafa ráðist harkalega gegn framferði þessara einræðisherra og ég efa að nokkur utanríkisráðherra, a.m.k. hef ég ekki séð slík ummæli, hafi tekið jafnsterkt til orða og ég þegar ég kallaði þetta, fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar, stríðsglæpi. Þetta eru ekkert annað en stríðsglæpir. Og ég tók hjartanlega undir með málflutningi hv. þingmanna Hreyfingarinnar sem komu hér í tvö skipti upp og lýstu því yfir að stefna okkar væri afdráttarlaus um þetta. Við höfum tekið undir harðorðar ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, við höfum t.d. stutt það að vopnasölubann verði sett á landið og við höfum sömuleiðis stutt frystingu eigna Gaddafís og fjölskyldna hans hvar sem er í heiminum.

Það sem kannski mestu skiptir er að við stóðum að tillögu sem leiddi til þess að Líbía hefur verið rekin úr mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Grundvöllurinn undir því sem alþjóðasamfélagið er að gera núna er hugsanlega það, við stóðum að því líka, að það yrði falið sakadómstóli Sameinuðu þjóðanna að rannsaka árásir öryggissveita Gaddafís á íbúana og sækja þær til saka. Það þýðir það, þetta síðasttalda, að í þeim átökum sem nú standa yfir vita þeir það, sem annaðhvort taka þátt í slíkum hryðjuverkum eða gefa um þær fyrirskipanir, að þeir verða eltir uppi hvenær sem færi gefst og dregnir fyrir dómstóla þar sem meintir glæpir þeirra verða rannsakaðir. Það skiptir mjög miklu máli. Ég vil líka að það komi skýrt fram að þótt Ísland sé lítið land sem hefur lítil samskipti við þennan part heimsins, og Líbíu sérstaklega, höfum við samt látið hendur standa fram úr ermum og erum við það að ljúka innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna varðandi refsiaðferðir gagnvart Líbíu.

Hv. þingmaður varpaði til mín ýmiss konar spurningum sem eru tiltölulega flóknar en ég vil að það sé algjörlega skýrt að einræðisherrar sem, eins og orðið geislar af sér, leita aldrei eftir lýðræðislegum vilja þjóðar sinnar og ástunda ekki opnar og lýðræðislegar kosningar undir óháðu eftirliti — það á ekki að selja þeim vopn. Það er óheilbrigt viðskiptasamband á milli þessara þjóða og vestrænna ríkja sem grundvallast á því að þeir fá þróunaraðstoð og þeir fá vopn og í staðinn fá vesturveldin olíu og þann stöðugleika á orkumarkaði sem því fylgir. Það er það sem menn hafa verið að sækjast eftir. Og hvarvetna þegar rof verður á þessum viðskiptasamböndum eins og er núna um þessar mundir rís almenningur í þessum löndum upp og kvartar undan of háu olíuverði. Við þurfum líka að spyrja okkur sjálf spurninga um það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Hv. þingmaður spyr mig líka hvernig boðskapur vesturveldanna gagnvart stjórnvöldum í Líbíu samrýmist nú þessari stefnu. Auðvitað eru mjög áberandi og augljósar þverstæður í þessu, þær liggja í því að vopnin sem Gaddafí t.d. hefur fengið í þessum viðskiptum eru núna notuð til þess að framkvæma þá kúgun gagnvart saklausu frelsisunnandi fólki sem við öll erum að átelja harðlega þessa dagana.

Ég hef þegar svarað hv. þingmanni varðandi afstöðu mína til hugsanlegrar hernaðaríhlutunar, ég tel síðan varðandi síðustu spurningu hans um ábyrgð okkar að auðvitað berum við ábyrgð á því að reyna að styðja þessar þjóðir til þess að ná fram vilja almennings og líka til þess að byggja upp í kjölfar átaka. Það er ekki bara siðferðisleg skylda okkar, heldur eru það líka (Forseti hringir.) hagsmunir okkar að reyna að koma á friði og stöðugleika í þessum heimi.