139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka einnig ágæta umræðu. Nú fordæma menn fallna eða fallandi einræðisherra í Norður-Afríku og Miðausturlöndum og það réttilega. Hins vegar finnst mér mikilvægt að hafa í huga, eins og hv. málshefjandi Árni Þór Sigurðsson benti á, hvernig umræðan hefur verið fram að þessu, hvernig Vesturlönd lögðu sig eftir því að eiga sem mest samskipti og viðskipti við þessa sömu einræðisherra. Evrópusambandið hélt ráðstefnu í Líbíu fyrir ekki svo löngu til þess að auka á samband og viðskipti við það land. Þangað streymdu þjóðarleiðtogar frá Ameríku, Evrópu og Asíu. Þeir flokkar sem misstu völd í Túnis og í Egyptalandi voru systurflokkar Samfylkingarinnar í virku samstarfi á alþjóðavettvangi en var vikið úr alþjóðasamtökum sósíaldemókrata eftir að þeir urðu óvinsælir heimafyrir. Fram að því höfðu menn stungið saman nefjum og rætt málin á alþjóðavettvangi.

Við sjáum nefnilega að hvað sem menn kunna að halda um alþjóðasamfélagið þá ræður hagnaðarvonin, að eiga viðskipti, þar för fyrst og fremst. Það virðast nánast engin takmörk vera fyrir því hvað stjórnvöld geta leyft sér að gera. Ef einhver hagnaðarvon er til staðar horfir alþjóðasamfélagið gegnum fingur sér. Ég held að menn þurfi að reyna að læra af reynslunni hvað það varðar, þó sérstaklega varðandi viðskipti með vopn, eins og hv. málshefjandi benti á. Þar ættu Íslendingar að beita sér eins og þeir mögulega geta. Auðvitað er þar við ramman reip að draga, þar er um gífurlega hagsmuni að ræða. En ef það er ekki áminning um að vestrænar lýðræðisþjóðir þurfi að beita sér gegn vopnasölu, sérstaklega til einræðisherra í vanþróuðum ríkjum, veit ég ekki hvað mun vekja okkur til umhugsunar um það.