139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég fagna þessum umræðum og þakka hv. þingmanni fyrir að hefja hana. Mér finnst gott að heyra hversu afdráttarlaus hæstv. utanríkisráðherra er og mig langar að fá algjörlega skýr svör við því sem komið hefur fram, að hugsanlegt sé að Ísland taki þátt sem aðili að NATO í hernaðaraðgerðum gegn Líbíu.

Mig langar að koma inn á nokkuð mikilvægt mál. Um leið og hin merkilega lýðræðisbylgja hófst í Túnis sem fór síðan yfir í önnur lönd, þar á meðal Egyptaland, fannst mér bera mjög á áhugaleysi og vanta afgerandi stuðningsyfirlýsingar frá vestrænum löndum við það fólk sem kallar eftir lýðræðisumbótum og frelsi. Það var ekki fyrr en það kom við pyngjuna hjá okkur að vestrænar þjóðir fóru að taka við sér. Það finnst mér óhugnanlegt og óþægilegt.

Ég verð að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa tekið mjög sterkt til orða varðandi Egyptaland. Það eru mjög fáir þjóðarleiðtogar í hinum vestræna heimi gera það. Hann á hrós skilið fyrir það.

Mig langar til að vekja athygli á öðru einræðisríki, Kína. Við eigum í miklum viðskiptum við það ríki en þar eru stunduð mannréttindabrot og morð á borgurum þeirra af ríkisstjórn, almennum borgurum sem berjast fyrir mannréttindum. Mig langar til að heyra, ef svo ber undir að það verði byltingarástand þar hvernig við ætlum að bregðast við því? Mig langar til þess að minna á mikilvægi upplýsingafrelsis og upphaf þess (Forseti hringir.) að þessi byltingarbylgja hófst í Egyptalandi, (Forseti hringir.) Túnis og víðar.

Svo vil ég hvetja til þess að við höldum áfram að vera afdráttarlaus (Forseti hringir.) í stuðningi okkar við fólkið í Líbíu.