139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:49]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Staðalímynd flestra okkar Vesturlandabúa af araba er kuflklæddur, siðblindur náungi með kvennabúr sem hugsar ekki um neitt annað en dýrar bifreiðar og helst að eignast knattspyrnufélag í Bretlandi eins og tíðkaðist á mesta siðspillingarskeiði þjóðar okkar. Veruleikinn er mjög fjarlægur því. Ég hef notið þeirrar blessunar að búa í arabalöndum um nokkurt skeið. Arabar eru upp til hópa yndislegt fólk rétt eins og við sem búum á Íslandi. Hins vegar hafa arabar lent í þeirri ógæfu að eignast viðskiptafélaga á Vesturlöndum sem komið hafa til valda alls konar lýð í þessum heimshluta og sem vekja viðbjóð hvar sem þeir fara. Ég bendi á að Gaddafí, sem er vonandi í dauðateygjunum, gekk ekki af vitinu í síðustu viku. Allur heimurinn hefur vitað það síðustu 40 ár að sá maður er lífshættulegur, geðveikur og hvergi í húsum hæfur. Engu að síður hafa Vesturlönd átt viðskipti við alla einræðisherra í arabaheiminum af góðri lyst. Þau vopn sem Gaddafí mun nota til að úthella blóði sinnar eigin þjóðar eru ekki búin til af honum eða fólki hans. Þau eru búin til á Vesturlöndum. (Forseti hringir.) Við getum lítið gert annað en að standa með lýðræði (Forseti hringir.) í orði og verki alla tíð og senda bræðrum okkar og systrum í arabaheiminum baráttukveðjur okkar (Forseti hringir.) með ósk um frelsi, jafnrétti og bræðralag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)