139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á Íslandi fylgjumst við með andakt með því hvernig lýðræðis- og frelsisbylgjan fer yfir Norður-Afríku. Ég held að það sé samhljómur í þessum sal hvað það varðar, að við fögnum því að menn losni loksins undan oki og kúgun þeirra einræðisherra sem þar hafa verið. Við fordæmum öll, að ég held, sérstaklega þau verk sem bandítinn Gaddafí hefur framið á þegnum sínum síðustu daga.

Við á Vesturlöndum þurfum engu að síður að sýna varkárni gagnvart því að skipta okkur af deilum öðruvísi en að segja: Við stöndum með frelsinu, við stöndum með lýðræðinu. Við þurfum líka að hugsa um hvert það leiðir okkur. Hvert fer Jemen? Hvert fer Barein? Hvað gerist í Íran? Hvað verður um Jasmín-byltinguna í Kína? Hvert leiðir það okkur? Ef við höfum það í huga verðum við líka að vera tilbúin til að spá í hvort valdbeiting sé nauðsynleg.

Því miður segir sagan okkur að við höfum stundum verið allt of sein. Ég get nefnt Rúanda, ég get líka nefnt það þegar alþjóðasamfélagið brást allt of seint og allt of lítið við þegar það fór inn í Júgóslavíu til að vinna gegn voðaverkum Serba. Það er nokkuð sem við eigum að læra af.

Þess vegna tek ég undir með Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, sem sagt hefur að þeir fylgist með og séu reiðubúnir ef þörf er á að grípa inn í til að verja frelsi, lýðræði og réttindi borgaranna á svæðinu. Þá skiptir mjög miklu máli að íslenska ríkisstjórnin sé líka tilbúin, vinstri stjórnin sem er í landinu, og að vinstri grænir sitji ekki eftir einangraðir í afstöðu sinni gagnvart því hvernig bregðast eigi við.

Þess vegna fagna ég sérstaklega orðum hæstv. utanríkisráðherra áðan og þeirri ræðu sem hann flutti þar sem hann lýsti yfir stuðningi við frelsi og lýðræðisréttindi þegnanna og fordæmdi um leið það ofbeldi sem á sér stað í norðanverðri Afríku.