139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[14:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Einn hv. þingmaður gat þess að þeir félagar sem verið er að steypa af stóli í Norður-Afríku væru félagar í Samfylkingunni. Það skiptir mig engu máli hvort einræðisherrar eru sósíaldemókratar eða ekki, þeir eiga að víkja og þeir eiga að fara. Utanríkisstefna okkar á að byggjast á grundvallarsjónarmiðum sem eiga fyrst og fremst að varðast af afstöðu okkar til mannréttinda. Þessi ríkisstjórn hefur ekki hikað við að taka einarða afstöðu í þeim efnum, ekki bara gagnvart Norður-Afríku, heldur gagnvart ríkjum eins og Ísrael. Eins og ég hef trúað hv. utanríkismálanefnd fyrir hefur það ekki orðið til þess að við höfum aflað okkur aukinna vinsælda hjá sumum af þeim stórveldum sem við vildum þó heldur að væru vinir okkar.

Varðandi þá spurningu sem hér hefur aðallega legið undir í þessari umræðu, þ.e. hvort það sé verjanlegt að beita hervaldi, hef ég a.m.k. upplýst þingið um það hvert hugur minn hallast við vissar aðstæður í því efni. Ef maður setur sig í spor einhvers sem horfir á það að ungt fólk, óbreyttir borgarar, fólk sem er að berjast fyrir því að fá réttindi sem við sjálf teljum óhjákvæmileg og brýn sé stráfellt, jafnvel með flugárásum eða stórfelldum þungavopnum, er mjög erfitt að standa andspænis slíkri ákvörðun og segja nei þegar spurt er: Á að koma því fólki til hjálpar? Þá veit a.m.k. hv. Alþingi hvað ég er að hugsa í þeim efnum og þar er um meiri háttar ákvörðun í utanríkispólitískum efnum að ræða og þingið hefur sínar leiðir til að hafa áhrif á slíka ákvörðun ríkisstjórnar.

Ég vil líka segja, frú forseti, að ég er sammála því sem mér sýnist vera meginafstaða hér í þessari umræðu, að við eigum að gera allt sem við getum til að styðja baráttu þessa fólks í þeim löndum sem núna eru að reyna að brjóta af sér hlekki einræðis og kúgunar. Það finnst mér vera það sem liggur eftir þessa umræðu og fyrir það er ég mjög þakklátur.