139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

lengd þingfundar.

[14:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við að það eigi að fara með þetta mál um svokallað stjórnlagaráð á harðaspretti í gegnum þingið. Við erum að tala um breytingar á stjórnarskrá Íslands og nú liggur stjórnarmeirihlutanum og einhverjum fleirum kannski svo mikið á að koma því í gegnum þingið að það þarf að lengja fundinn til þess í stað þess að hér fari fram, ef það má orða það þannig, heilbrigð og eðlileg umræða og málið fái að þroskast hér í umræðu og slíkt. [Kliður í þingsal.]

Annað mál þessu tengt, frú forseti, er að það á ekki að breyta stjórnarskránni í flýti, það á ekki að hraða sér við það og kasta til þess höndunum (Gripið fram í.) eins og ég vil meina að verið sé að gera núna með því að fara þessa leið. Hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af þeim orðum sem ég nota hér en það er allt í lagi, það er alveg ljóst að það á að hraða þessu máli í gegnum þingið (Forseti hringir.) svo stjórnlagaráð geti orðið sem fyrst að veruleika, (Forseti hringir.) eins vanbúið og það nú er.