139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

lengd þingfundar.

[14:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Á dagskrá þessa fundar, sem er 85. þingfundur þessa vetrar, eru 13 mál. Við erum að ræða 4. málið á þeirri dagskrá og ég tel nokkuð brýnt að við reynum að ljúka þessari dagskrá eins og fyrir okkur hefur verið lagt í dag. Að það taki fram á kvöld er í sjálfu sér bara eðlilegt miðað við aðstæður og miðað við það að þingmenn vilja og þurfa að tala mikið í málum. Það er bara hið besta mál. Svo ber líka að hafa í huga að öll næsta vika fer samkvæmt starfsáætlun í nefndastörf þannig að ég held að það væri bara ráð að við hæfum sem fyrst umræðu aftur hér um 4. dagskrármálið og yrðum hér eins lengi og þörf krefur, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)