139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

lengd þingfundar.

[14:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Menn hafa nokkrum sinnum, sérstaklega forsetar Alþingis, lagt á það áherslu að þeir ætli að breyta Alþingi í fjölskylduvænan vinnustað. Nú gerist það klukkan hálfþrjú að þeir sem eiga börn heima þurfa að fara að hringja og redda pössun, og jafnvel ekki vitað hversu lengi (Gripið fram í: Getur …?) pössunar er þörf. Þetta finnst mér mjög slæmt, frú forseti, ekki það að ég vilji ekki gjarnan hafa minni samkeppni um þingsætin, að allir þeir sem eiga börn geti ekki farið á þing, en mér finnst mjög slæmt ef sá þjóðfélagshópur sem á börn er útilokaður frá því að sækjast eftir þingsæti vegna þess hversu óbarnvænn þessi vinnustaður er. Mér finnst alveg út í hött að það sé ekki einu sinni gefið upp hvort það eigi að þinga hérna til klukkan tíu eða ellefu, eitt eða tvö.

Ég skorast ekkert undan því að vinna hérna á Alþingi, það er ekki vandamálið, en ef ég væri með börn eða ef ég hefði tekið að mér að passa barnabörnin í kvöld (Forseti hringir.) lenti ég í vandræðum, frú forseti.