139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp vegna þess að hv. þingmaður sem talaði áðan er sérstök áhugamanneskja um stjórnskipunina í landinu og ég vil benda henni á að tillagan er flutt af þrem þingmönnum. Ég vona samt að ríkisstjórnin styðji hana, en hún er flutt af þrem þingmönnum.

Hv. þingmaður situr í allsherjarnefnd og mig minnir að við höfum setið þar saman í fyrravetur, það getur verið að minnið svíki mig eitthvað í því. En þá var frumvarpinu um stjórnlagaþing einmitt breytt í allsherjarnefnd í þá átt að færa alla framkvæmdina á því að stjórnlagaþingið skyldi starfa undir Alþingi. Þess vegna þykir mér eðlilegt að þingið haldið áfram með þetta mál.

Ég vil benda hv. þingmanni á að það hefur enginn sagt að þessi tillaga stríði gegn lögum, enginn. Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að hún er almennt á móti stjórnlagaþingi.