139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mér fannst það hins vegar ekki koma nægilega vel fram hjá henni hvort hún teldi yfirleitt ástæðu til að breyta stjórnarskránni. Ég ætla að spyrja hana að því fyrst hvort hún telji ástæðu til að breyta stjórnarskránni.

Það er rétt hjá henni að Alþingi er löggjafarvald, löggjafarþing, og getur eitt breytt stjórnarskrá landsins. Þá er það spurningin: Hvers vegna telur hv. þingmaður að Alþingi hafi aldrei tekist það almennilega? Reyndar hafa verið gerðar nokkrar breytingar á stjórnarskránni en þær hafa verið mjög hægfara og nefndir sem settar hafa verið á laggirnar af hálfu Alþingis hafa ekki náð árangri og ekki lagt fram tillögur. Hefur hv. þingmaður einhverja skýringu á því hvernig á því stendur?

Svo er það það sem hv. þingmaður sagði um ábyrgð; það er dálítið merkilegt að hér fellur hæstaréttarúrskurður — rétt að kalla það réttu nafni — og sá úrskurður segir að ákveðin framkvæmd sé klúður. Samt gerist ekki neitt, það er enginn sem ber ábyrgð neins staðar. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefði hún ekki talið eðlilegt að einhver bæri ábyrgð á þessu vegna þess að það er mikið kallað eftir því að menn beri ábyrgð í þjóðfélaginu? Hv. þingmaður kom reyndar inn á það í ræðu sinni að hér falla hæstaréttardómar í málum ráðherra vegna stjórnsýslu þeirra og í kjölfarið gerist ekki neitt.

En það var aðallega þetta atriði með það hvort breyta þurfi stjórnarskránni og eins af hverju Alþingi hafi ekki tekist það verkefni.