139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi ætla ég að segja þetta: Bankahrunið varð ekki vegna þess að stjórnarskráin væri orðin úrelt. Bankahrunið varð vegna þess að hinir svokölluðu bankagangsterar fóru ekki að lögum. Það er það sem ég er að tala um. Ráðherrar, ríkisstjórnir, þegnarnir, það verða allir að fara að lögum. Það er málið.

Svo er alltaf látið eins og það sé stjórnarskránni að kenna að heilt land hafi fallið. Þessi umræða er komin á svo miklar villigötur að það tekur ekki tali.

Auðvitað er ástæða til að yfirfara stjórnarskrána okkar og jafnvel breyta henni. Hv. þm. Pétur Blöndal spyr: Hvers vegna hefur það ekki tekist hingað til með afgerandi hætti? Mannréttindakaflinn kom inn 1995 og svo hafa þetta verið smávægilegar breytingar. Ég tel að helsti ásteytingarsteinninn í því hafi verið neitunarvald forseta Íslands, að ekki tókst samkomulag milli stjórnmálaflokkanna um að breyta 26. gr. varðandi það.

Nú liggur fyrir að allir eru ólmir í að breyta þeirri grein í stjórnarskránni, kannski allir nema fulltrúar Framsóknarflokksins. Ég vil ekki að sá öryggisventill sem felst í 26. gr. stjórnarskrárinnar, að forsetinn geti hafnað því að skrifa undir lög, fari þaðan út nema á einhvern annan hátt sé hægt að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslur, ákveðið hlutfall af þjóðinni eða hvernig það er. Fyrr vil ég ekki að öryggisventillinn fari út. Það verður að vera einhver öryggisventill á þann hátt að hægt sé að stoppa mál sem er troðið í gegnum þingið með ofbeldi og hótunum í krafti meiri hluta. Það er óásættanlegt að þessi grein fari út annars. Þetta var kannski aðalsvarið við spurningunni, að ég tel að það hafi verið 26. gr.

Hver það var sem bar ábyrgð? Jú, það voru fjórir einstaklingar sem báru ábyrgð. (Forseti hringir.) Landskjörstjórn var látin segja af sér. (Forseti hringir.) Formaður nefndarinnar er kominn inn í landskjörstjórn aftur þannig að það var t.d. fulltrúi Framsóknarflokksins í landskjörstjórn sem bar ábyrgð á þessum vonlausu kosningum sem framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnin stóð fyrir. (Forseti hringir.) Það er einkennileg afstaða.

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmenn eru beðnir um að hefja ekki nýja málsgrein, ekki nýja setningu, fara ekki inn í nýtt mál þegar tíminn er útrunninn.)