139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að vera ósammála hv. þm. Pétri Blöndal því að þjóðin kýs í alþingiskosningum um breytingar á stjórnarskránni. Þá fer málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi gerir það að sínu síðasta verki að samþykkja stjórnarskrárbreytingar, þinginu er slitið tafarlaust, boðað til kosninga, kosningar fara fram og þá er það lagt fyrir þjóðina, breytingarnar sem liggja á stjórnarskipunarlögunum. (Gripið fram í.) Svo er nýtt þing kjörið eins og t.d. gerðist hér árið 2009 með 27 nýjum þingmönnum þannig að í því tilfelli eru það 90 lýðræðislega kjörnir þingmenn sem breyta stjórnarskránni, öll þjóðin sem mætir á kjörstað, kosningarbærir menn í alþingiskosningunum, auk forseta. Er hægt að hafa þetta lýðræðislegra? (Gripið fram í: … allt annað.) Svona er ferlið og þess vegna vil ég halda því hér innan dyra með þeim hætti sem ég lýsti áðan; stjórnskipunarvaldið liggur hér og þetta er sá ferill sem við förum í gegnum sem er nákvæmlega (Forseti hringir.) tilgreindur í 79. gr. stjórnarskrárinnar sem þingmaðurinn minntist á.