139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að mikilvægt sé í þessari umræðu eins og öllum að kalla hlutina réttum nöfnum. Þingmálið sem við ræðum hér, tillaga til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs, er eins og við blasir hverjum einasta manni, redding og ekkert annað. Ég ætla að hlífa sjálfum mér við því að nota alþekkt forskeyti sem stundum er skeytt fyrir framan þetta orð enda geri ég ekki ráð fyrir að ég hefði heimild í þessum ræðustól til að nota það og læt það því liggja milli hluta. Auðvitað blasir við hverjum einasta manni sem fylgst hefur með forsögu málsins og því sem gerst hefur frá því að Hæstiréttur felldi úrskurð sinn, að menn hafa verið í fullkomnum vandræðum með það hvernig bregðast ætti við.

Staðreyndin er þessi: Hæstiréttur úrskurðaði að kosningar til stjórnlagaþings væru ógildar. Ef áhugamenn um stjórnlagaþing hefðu viljað halda þeirri vinnu áfram hefði auðvitað aðeins eitt komið til greina, að hefja vinnuna að nýju frá grunni, huga að löggjöf um stjórnlagaþing vegna þess að við blasir að mörgu er mjög ábótavant í henni, vinna síðan að undirbúningnum, opna á framboðsfrest og gefa mönnum kost á að halda áfram. Áður hefði að sjálfsögðu þurft að taka afstöðu til hluta eins og hvort byggja ætti á persónukjöri þar sem landið væri eitt kjördæmi.

Ég sagði í andsvari áðan að það sem við sáum í kosningunum, persónukjör og landið eitt kjördæmi, væri baneitruð blanda og það kom líka á daginn. 524 frambjóðendur sem höfðu enga möguleika til að kynna sig og þýddi auðvitað að það var meira og minna, svo að ég einfaldi dálítið, fræga fólkið úr Reykjavík sem náði kjöri. Frambjóðendur um allt land sem höfðu margir heilmikið fram að færa komu málstað sínum ekki á framfæri og áttu þess vegna ekki sjens í kosningunum.

Hér er verið að búa til skrípaleik í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar. Hæstiréttur úrskurðaði að kosningin hefði verið ógild. Engir stjórnlagaþingsfulltrúar eru til í landinu einfaldlega vegna þess að kosningin til stjórnlagaþings, var ógild. Það er eins og menn vilji ekki sætta sig við þetta og hefji því leikinn aftur með þessum sérkennilega hætti.

Sá orðvari hagfræðingur Þráinn Eggertsson skrifaði mjög athyglisverða stutta grein í Morgunblaðið í gær og líkti aðferðinni sem nú er borin á borð fyrir okkur, við tiltekna aðferð í hagfræði sem kallast hrakval.

Þessi ágæti prófessor segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Hrakval lýsir því þegar menn óafvitandi velja bjagað safn einstaklinga með eiginleika sem ganga þvert á markmiðið sem stefnt er að. Í þessu tilviki“ — og nú undirstrika ég — „veljast þeir einir í stjórnlagaráð sem taka ekki mark á dómi Hæstaréttar um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings. Með öðrum orðum: Þeir einir eru valdir til að semja nýja stjórnarskrá sem taka ekki mark á stjórnarskrá lýðveldisins.“

Ekki er hægt að orða þetta betur en prófessorinn gerir þarna. Hann gerir það með varkárum en lýsandi hætti eins og hans er von og vísa og ekki þarf miklu við þetta að bæta.

Við vitum að stundum hefur verið ágreiningur um efnisinntak stjórnarskrárinnar. Við höfum gert atrennur að ýmsum breytingum, stundum hefur okkur miðað ágætlega eins og t.d. varðandi mannréttindakaflann á sínum tíma. Stundum höfum við komist býsna nærri því að ná árangri eins og t.d. varðandi stjórnarskrárákvæði um auðlindirnar. Þar vantaði herslumun upp á og ég fullyrði að þar er ekki mikill ágreiningur um efnisatriðin. Síðan hefur gengið miður með annað. Ágreiningurinn hefur þá verið um efnisinntakið.

Hér er hins vegar mér vitanlega í fyrsta skipti lagt upp með að hefja endurskoðun á stjórnarskránni þar sem líka er ágreiningur um sjálft formið, ekki bara mögulegur ágreiningur um efnisinntakið. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þetta verða vond fyrstu skref því að þegar búið er að efna til ófriðar um formið sjálft, hvernig standa á að því að endurskoða stjórnarskrána, er ekki við því að búast að víðtæk sátt verði um niðurstöðuna. Það gengur gegn grundvallaratriðinu í hugmyndunum sem menn settu fram um stjórnlagaþing. Þá átti einmitt að reyna að setja niður deilurnar og opna þetta gagnvart almenningi svo deilurnar yrðu minni. Hér er lagt af stað í vegferð sem mun skapa úlfúð og ágreining, algjörlega að þarflausu.

Ég nefndi það áðan að við höfum stundum verið komin býsna nálægt því að ná mikilvægum árangri, t.d. varðandi endurskoðun á 26. gr. sem lýtur að málskotsrétti eða öllu heldur synjunarvaldi forseta Íslands. Hvað gerðist í þeim efnum? Reynt var til þrautar fyrir kosningarnar 2007 að ná niðurstöðu um það. Samfylkingin lagðist þversum, kom í veg fyrir að þetta næði fram að ganga vegna þess að hún var þá lituð af pólitískum átökum sem orðið höfðu um fjölmiðlafrumvarpið og eftirköst þeirra sem allir þekkja og ljáði því ekki máls á því að hróflað yrði við synjunarvaldi forseta Íslands.

Nú sjá auðvitað allir að þetta getur ekki gengið svona. Ég var á fundi í Háskóla Íslands í gær þar sem lagaprófessorar sögðu: Það er auðvitað afkáralegt að valdi fylgi ekki ábyrgð. Í stjórnarskránni er kveðið á um ábyrgðarleysi forsetans á stjórnarathöfnum en hann hefur tekið sér vald með beitingu 26. gr. stjórnarskrárinnar og að þessu þarf auðvitað að hyggja.

Sagt hefur verið að vandi sé að finna lausn á þessu máli sem hægt er að sætta sig við. Í fyrsta lagi skulum við hafa í huga að Alþingi þarf að leggja blessun sína yfir stjórnarskrá. Hér er eingöngu verið að leggja til skipan nefndarfólks sem hefur ekkert með stjórnlagaþing að gera. Stjórnlagaráð er einhvers konar orðskrípi sem er búið til í framhaldi af því að þetta fólk hlaut kosningu í ólöglegu kjöri og hafði í raun og veru ekkert með það að gera, það varð bara fyrir þeim örlögum að hæstv. ríkisstjórn, sem ber auðvitað ábyrgð á þessu, stóð svo illa að kosningunum að kjörið varð ólöglegt. Þá á að búa til stjórnlagaráð sem er náttúrlega afkáralegt eins og allir sjá. Við höfum í fyrsta lagi nú þegar stjórnlaganefnd sem búin er að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar á grundvelli gagna sem fyrir lágu. Eðlilegt gæti t.d. verið að stækka þá nefnd eða skipta henni niður og fela henni afmörkuð verkefni. Það mætti auðvelda aðkomu almennings að málinu með margvíslegum hætti. Það verður ekki gert með stjórnlagaráði, það er bara nefnd sem Alþingi skipar. Maður spyr sig: Af hverju er þetta mál lagt fyrir Alþingi? Af hverju skipar hæstv. forsætisráðherra ekki sjálfur þessa nefnd? Þetta er alveg fráleitt.

Ef menn vilja opna aðgengi almennings að endurskoðun stjórnarskrárinnar eru ótal leiðir til. Hægt er að gera það eftir þeim leiðum sem ég nefndi. Einnig mætti hugsa sér að hafa gagnvirkt samband í gegnum netið þannig að menn gætu komið ábendingum á framfæri. Þannig var t.d. byrjað að reyna að vinna á árunum 2007, 2008 og 2009. Halda mætti opna fundi með fólki í kringum landið þar sem stjórnlaganefndin skýrði mál sitt og ræddi málið og þannig væri opnað aðgengi almennings að mótun stjórnarskrárinnar. Þetta er ekki leiðin til þess, þetta er hin lokaða leið.

Þess vegna vekur óneitanlega mikla undrun að þegar fjallið tók loksins jóðsótt fæddist þessa litla mús sem þingsályktunartillagan er, lítil mús sem er redding án forskeytis, redding á máli sem hæstv. ríkisstjórn var komin í fullkominn vanda með.

Það undrar mig satt að segja þegar farið er af stað með þetta mál að þeir sem bera ábyrgð á málinu eins og það er statt í dag, hv. þingmenn sem eru flutningsmenn og hæstv. ráðherrar, þeir sem á annað borð treystu sér til að standa að málinu og liggur fyrir að það er örugglega ekki öll ríkisstjórnin og svo sem óljóst hversu mikill stuðningur er við málið í þinginu eins og komið hefur m.a. fram í morgun, skuli ekki hafa hlustað á viðvörunarorð hinna fróðustu manna sem hafa tjáð sig um málið upp á síðkastið. Þar má nefna t.d. forseta lagadeildar Háskóla Íslands, Róbert Spanó sem orðar þetta svo í viðtali við Morgunblaðið 25. febrúar sl., með leyfi virðulegs forseta:

„Það er ekki hægt að ganga út frá því með réttu að vera þeirra 25 á lista yfir þá sem urðu hlutskarpastir í stjórnlagaþingskosningunum sé byggð á traustum forsendum.“

Þetta er mjög alvarlegur áfellisdómur og makalaust að mál af þessu tagi skuli vera komið fram. Efasemdir voru um að það væri raunverulega þingtækt. Hæstv. forseti hefur þó úrskurðað að svo sé en að minnsta kosti er efnisinntak þess slíkt að útilokað er að samþykkja það og til eru færari leiðir og betri.