139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að átta mig á þeim blæbrigðamun sem kann að vera í afstöðu okkar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Við erum út af fyrir sig sammála um að fara ekki þá reddingarleið sem lögð er til með þingsályktunartillögu þremenninganna. Ég held líka að flestir geri sér grein fyrir að leið af þessu taginu er eins konar tilraun til að gera grín að almenningi (VigH: Upp á þúsund milljónir.) eftir að búið er að halda kosningar sem voru ógiltar og er það í fyrsta skipti í sögu lýðræðisríkja að slíkt gerist í almennum kosningum. Við erum að minnsta kosti sammála um það.

Mér sýnist hugsanlega geta verið blæbrigðamunur á afstöðu okkar í því að ég hef sagt að ég teldi ekki óskynsamlegt að opna betri leiðir fyrir almenning til að segja hug sinn um þær hugmyndir að stjórnarskrá sem stjórnlaganefndin hefur kynnt. Hægt væri að gera það með þeim hætti sem ég nefndi áðan eða með öðrum aðferðum sem menn gætu komið sér saman um. Aðalatriðið er þetta: Hér er lögð til leið þar sem búinn er til ágreiningur, ekki um inntak stjórnarskrárinnar (Forseti hringir.) heldur formið sem við ætlum að hafa á endurskoðun hennar og (Forseti hringir.) það er mjög alvarlegt mál.