139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér leiðist þegar menn skipa sér í flokka, ríkisstjórn – ekki ríkisstjórn, í umræðu um þetta mál. Ég held að það sé miklu stærra en svo og þess vegna var það vel gert hjá samráðshópnum að reyna að ná sem mestri samstöðu innan nefndarinnar um í hvaða farveg málið ætti að fara.

Ég vek á því athygli að í tillögu til þingsályktunar frá þessum meiri hluta er sérstaklega óskað eftir því að stjórnlagaráð taki til umfjöllunar lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal frumvarp til stjórnskipunarlaga. Þá er sérstaklega vísað til þeirra breytinga sem nefndin eða stjórnlagaþingsráðið getur lagt til um breytingar á stjórnarskránni, þ.e. opnað er fyrir þann möguleika að hægt sé að vísa málum stjórnlagaráðs beint til þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það vel vegna þess að ég tel að Alþingi hafi sýnt það á undanförnum árum að það á mjög erfitt með að endurskoða stjórnarskrá. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt og farsælt að koma þeim málum til stjórnlagaráðs.