139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar að leggja tvær spurningar fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Önnur varðar almenna afstöðu hans til hugmyndarinnar um stjórnlagaþing. Það hefur verið í a.m.k. hálfan annan áratug flutt nokkuð reglulega tillaga um stofnun slíks þings eða að setja slíkt þing á fót til að endurskoða stjórnarskrána en hún hefur alltaf strandað í þinginu. Í þennan hálfa annan áratug sem ég nefndi og lengur var Sjálfstæðisflokkurinn helsti valdaflokkur hér og hafði yfirleitt forsætisráðuneytið og meiri hluta í þinginu, einkum með Framsóknarflokknum, og stöðvaði alltaf þessa tillögu. Að lokum, sem sé eftir hrunið og þá uppreisn sem þá varð og við köllum búsáhaldabyltingu, komst þetta fyrir alvöru á dagskrá.

Mig langar að vita, af því að þingmaðurinn er þingreyndur, hver afstaða hans hefur verið til þessarar hugmyndar frá upphafi og hvaða afstöðu hann tók til málsins í upphafi þess ferlis sem við kynnum nú að vera að binda endahnút á.

Í öðru lagi langar mig að vita í þessu ferli hvernig fór með þátttöku hv. þingmanns í nefnd allra þingflokka um aðgerðir í framhaldi af dómi Hæstaréttar. Það er eins og mig minni að hv. þingmaður hafi verið fulltrúi í þeirri nefnd en síðan hætt þar störfum. Var það af eigin völdum, var þingmaðurinn upptekinn við annað eða tók þingflokkur þingmannsins hann úr nefndinni og setti annan í hana og hvernig stóð þá á því?