139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Almenn afstaða mín til stjórnlagaþings er neikvæð, ég hef verið á móti því og hef ekki farið dult með það. Ég tel að ég sé hérna á stjórnlagaþingi og ég tel enga ástæðu til að hafa tvö stjórnlagaþing í ekki stærra landi.

Hins vegar hefur það valdið mér miklum vonbrigðum hve erfiðlega hefur gengið að breyta stjórnarskránni. Það leiði ég af því að þingmenn eru of önnum kafnir við daglegan rekstur í þingnefndum og öðru og hafa ekki haft tíma til að sinna því. Lausnin fælist í því að ráða eða skipa níu þingmenn í sérnefnd sem gerðu ekkert annað og fengju frí frá öðru nefndarstarfi. Þá gæti hugsanlega komist eitthvert lag eða skriður á þessar stjórnarskrárbreytingar, sem ég held að flestir séu sammála um að séu mjög nauðsynlegar.

Um starf mitt í þessari nefnd er ég glaður að segja að ég tók þátt í því af miklum krafti til að byrja með en svo þurfti ég að fara í læknisaðgerð á mánudaginn, ég gat því ekki verið þann daginn í nefndinni. Síðan fór ég til útlanda á vegum ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem ég er fulltrúi í og ég varð að fara. Þess vegna fékk ég fyrir mig varamann sem ég held að hafi staðið sig ágætlega og ég fellst alveg á sjónarmið hans. Mér fannst að fyrsta og önnur leiðin, þ.e. alveg ný kosning eða uppkosning, hefði að mínu mati verið lausn þó að hún hafi verið dýr. Lýðræðið kostar en ég hefði getað fallist á hana. En ég lýsti því yfir í nefndinni að ég ætti mjög erfitt með að fallast á þá leið sem hér hefur verið valin, vegna þess að Hæstiréttur felldi úrskurð og ég ber mikla virðingu fyrir Hæstarétti. Hann fellir úrskurð og svo búa menn til stöðu með þessari þingsályktunartillögu eins og ekkert hafi gerst, eins og hann hafi ekki fellt neinn úrskurð.