139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Hv. þingmaður spyr hvort ég sjái einhverjar aðrar leiðir til að breyta stjórnarskránni, hverjar séu hugmyndar mínar í þá veru. Eins og við vitum var skipuð 7 manna stjórnlaganefnd sem undirbjó stjórnlagaþingið sem átti að verða áður en kosningin var dæmd ólögleg. Þessi nefnd hefur lagt í mikla vinnu og afurð hennar er nánast tilbúin. Ég teldi t.d. hægt að láta þá stjórnlaganefnd starfa áfram, hugsanlega með því, eins og kom fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar áðan, að skipta henni í undirhópa, jafnvel fjölga örlítið í henni, láta hópana fjalla um afmörkuð mál og skila síðan inn til þingsins. Þannig að við höfum margar aðrar leiðir. Mér hugnast sú leið sem verið er að fara núna allra síst, mér finnst þetta bera keim af því að verið sé að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar. Það er eingöngu verið að breyta nafninu stjórnlagaþing í stjórnlagaráð.

Þingið á heldur ekki að skorast undan þeirri vinnu að endurskoða stjórnarskrána. Þó að það hafi ekki gengið vel á undanförnum árum, og margar ástæður fyrir því sem aðrir þekkja betur en ég, megum við ekki festast í þeirri hugsun að útilokað sé að það gangi betur núna. Ég útiloka heldur ekki, og ég vil að það komi fram, að í meðförum þingsins og allsherjarnefndar geti málið tekið þeim breytingum að hugsanlega náist meiri sátt um það. Ég bind vonir við það. Í ljósi þess sem gerðist á fyrri stigum verð ég að binda vonir við að náðst geti breiðari samstaða og sátt um málið í meðförum allsherjarnefndar.