139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Seinni spurningin sem ég velti upp var varðandi fordæmið sem felst í því að fara á svig við úrskurð Hæstaréttar. Nú er það þannig að það eru stjórnvöld, reyndar Alþingi í þessu tilviki en ekki framkvæmdarvaldið, sem fjalla um þessa tillögu, þ.e. þetta verður ákvörðun Alþingis. Alþingi er löggjafinn í þessu landi, framkvæmdarvaldið framkvæmir og svo er það dómsvaldið. Ég hef áhyggjur af því að þetta kunni að skapa fordæmi. Ég hef áhyggjur af því og mig langar að heyra hvort fleiri eru sama sinnis.

Hitt atriðið varðar aðrar leiðir í boði. Ég hefði talið, út frá þeim kostum sem voru í boði, að heppilegast hefði verið að endurtaka allt frá grunni, gefa sér tíma í að undirbúa þetta. Það liggur ekkert á, við erum ekki í kapphlaupi við að breyta stjórnarskránni. Við eigum hins vegar heldur ekki að líta þannig á málið að við eigum að tefja þá vinnu sem þarf að vinna heldur gefa okkur sex mánuði eða ár til að gera þetta almennilega. Ég vil líka nota tækifærið og breyta því kerfi sem notað var við kosningarnar. Í ljós kom að það virkaði alls ekki að hafa eitt kjördæmi og persónukosningu.

Ég hef langmestar áhyggjur af Hæstarétti og því fordæmi sem við gætum hugsanlega skapað. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmanni hugnast það betur að endurtaka leikinn frá grunni, vanda til undirbúnings og breyta kosningareglum á þann veg að við stæðum uppi með svipaða afurð eða ferli og ætlunin var í upphafi.