139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um fordæmið. Hann hefur áhyggjur af því að þetta geti gefið ákveðið fordæmi, þ.e. að löggjafarvaldið, Alþingi, eins og ég hef haldið fram og margir aðrir, sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar með því að gera þetta á þennan veg. Ég hef af því áhyggjur eins og hv. þingmaður. Það kom fram í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals sem talaði á undan mér. Hann velti upp þeirri spurningu hvort hugsanlegt væri að Hæstiréttur mundi segja af sér. Ég get ekki lagt mat á það.

Það er líka sanngjarnt og mikilvægt að halda því til haga að það kom fram í andsvörum hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni í gær að hann sem lögfræðingur teldi að það stæðist lög að gera þetta með þessum hætti. Ég er ekki lögfræðimenntaður maður, eins og hv. þingmanni er vel kunnugt um, en ég held hins vegar að þetta séu ótvírætt ákveðin skilaboð, ég deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni. Það er ekki gott að gera þetta með þessum hætti.

Ég tek hins vegar algerlega undir það sem hv. þingmaður sagði áðan í andsvari sínu, og ég kom inn á það í ræðu minni, að við hefðum betur gefið okkur meiri tíma til að draga aðeins andann. Við munum bara, það er hægt að rifja það upp, að þegar niðurstaða Hæstaréttar var kynnt og við ræddum hana hér í þingsal sama dag þá voru mjög margir ekki í andlegu jafnvægi. Fólk var ekki undir þetta búið og brást við með mjög óeðlilegum hætti, fannst mér. Fólk stóð hér argandi og gargandi í ræðustól.

Mér finnst að við hefðum átt að gefa okkur meiri tíma og vanda vinnubrögðin meira til að reyna að komast að niðurstöðu sem breið samstaða gæti orðið um. Sú samstaða er mikilvæg þegar við förum í þá vinnu að endurskoða stjórnarskrána.