139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:35]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að þakka þingmanninum traustið. En ef hann hefði lesið stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar þá vissi hann að stjórnlagaþing er eitt af því sem var okkar aðalstefnumál. Að vísu ekki í þeirri mynd sem hér um ræðir en maður fær ekki alltaf allt í lífinu sem maður biður um. Ég hefði gert þetta öðruvísi. Sameinuðu þjóðirnar eru t.d. með tveggja ára prógramm sem ég held að hefði verið mjög spennandi — mér finnst stundum eins og aðrir hafi fundið upp hjólið en við séum að reyna að velta einhverjum þríhyrningi.

Þingmaðurinn spyr hvað það sé í stjórnarskránni sem hafi valdið hruninu. Það er ekkert í stjórnarskránni sem olli hruninu, það er frekar eitthvað í þjóðarsjálfinu, einhver minnimáttarkennd, það að okkur skortir fótfestu. Við vitum ekki hver við erum. Við höfum verið í hlutverki barns sem fyrrverandi nýlenduþjóð, við höfum fengið ákveðna hluti upp í hendurnar, t.d. stjórnarskrá. Við fengum herinn, við fengum Marshall-aðstoðina, við höfum fengið álver og við köllum alltaf eftir einhverjum töfralausnum sem eiga að bjarga öllu. Þetta finnst mér ákaflega vafasamur grunnur til að standa á og ég veit að þingmaðurinn er mér sammála um það.

Eitt af því sem við þyrftum að skoða er það hve við hugsum lítið til framtíðar. Ég veit að þingmaðurinn hefur mikinn áhuga á sparnaði. Ég held að það tengist sjálfsmynd okkar að hugsa alltaf fyrir daginn í dag og velta því ekki fyrir okkur hvað framtíðin beri í skauti sér og búa okkur ekki undir hana.

Ég verð að fá að svara öðrum spurningum þingmannsins í seinna andsvari.