139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í þá hernaðarumræðu sem hér á sér stað. Ég var svolítið hugsi yfir annars ágætri ræðu hv. þingmanns, og ég þakka henni fyrir hana. Auðvitað er þetta þannig mál að við höfum ákveðna sannfæringu fyrir þeim tillögum sem voru uppi að lausnum og að sjálfsögðu metur það hver og einn og við verðum að virða það.

Undir það síðasta kom fram að við ættum að horfa í eigin barm, líta í spegilinn og sjá hvað við þurfum að laga. Ég er algerlega sammála því. Mér finnst hins vegar að þessi leið sé ekki góður liður í því. Það á að fara fram skemmri skírn í þessu, eins og ég kalla þetta mjög kurteislega, og það minnir á það sem við höfum verið að gagnrýna og það sem gagnrýnt er í skýrslunni um hrunið mikla. Þetta minnir mig á það sem þingmannanefndin varaði við, eins og þingmaðurinn nefndi. Þess vegna held ég, þó ekki væri nema út af því, að betra hefði verið að setjast niður, vanda til verka, gefa sér örlítið meiri tíma og ganga í það að fara yfir þær breytingar á stjórnlagaþingi, væntanlega nýkjörnu, sem þarf að gera. Ég hefði getað sætt mig við það. Ég held reyndar að ég hafi verið kosinn á Alþingi til þess m.a. að fjalla um stjórnarskrá svo að við höldum því til haga.

Hæstiréttur gerði ýmsar athugasemdir við þessa framkvæmd, það er alveg ljóst. Hvort sem það kallast úrskurður eða ákvörðun sem Hæstiréttur felldi eða kvað upp úr um þá var það nú samt þannig að Hæstiréttur sagði að þessi kosning hefði verið ógild og þar af leiðandi var allt við hana ógilt. Ég vil því í þessu fyrra andsvari spyrja hv. þingmann hvort hún telji að við séum að fara rétta leið út frá þeirri reynslu sem við höfum, ef við lítum nú í spegilinn.