139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður sagði áðan: „Hún er ekki okkar“ — þ.e. að stjórnarskráin sé ekki okkar. Það er alveg rétt, hún var ekki samin af íslenskum þingmönnum.

Það er nú einu sinni þannig að það er ýmislegt sem við fáum upp í hendurnar sem er ekki okkar, reglur í EES-samningnum til dæmis. Ef menn álpast inn í Evrópusambandið, sem ég vona vitanlega að verði aldrei, verður „það sem er okkar“ smápunktur á blaði í öllu því kraðaki sem þar er. En þetta er stjórnarskráin og hún skiptir miklu máli. Það þarf að vanda vel til verka þegar verið er að breyta henni.

Hv. þingmaður sagði áðan að ýmis öfl vildu ekki breyta stjórnarskránni. Ég tel að breyta þurfi stjórnarskránni og ég vil benda hv. þingmanni á að í þeirri nefnd sem fjallaði um sjávarútveginn, svokallaðri sáttanefnd, voru allir sammála um að setja þyrfti ákvæði í stjórnarskrá um eignarhald á auðlindinni. Það er risaskref.