139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum ábendinguna. Þessi stjórnarskrá hefur sjálfsagt á einhverjum punkti í tilveru okkar þjónað okkur ágætlega. Ég held að ef bakgrunnur okkar hefði verið annar þá gæti það alveg verið svo — ef við hefðum tekið hana upp og það hefði verið hluti af einhverri lýðræðisbyltingu einhvers staðar annars staðar, en það var ekki svoleiðis.

Stjórnarskráin er ólík annarri löggjöf því þetta eru grunnlögin okkar og undirstaðan verður að vera okkar til að við getum byggt á henni eitthvað annað. Þá skiptir ekki svo miklu máli þó að við fáum EES-reglugerðir og annað inn í löggjöf okkar ef við tryggjum að grunnurinn sé okkar og í takt við það samfélag sem við viljum skapa.