139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir sagði áðan eitthvað á þá leið að búsáhaldabyltingin hefði fleytt henni og félögum hennar í Borgarahreyfingunni, síðar Hreyfingunni, inn á þing. Sé svo vil ég segja að mér sýnist byltingin vera farin að éta börnin sín af góðri lyst því að það sem lagt er til og það sem hv. þingmaður blessar með orðum sínum er óralangt frá þeirri hugmyndafræði sem ég hygg að hv. þingmaður hafi boðað a.m.k. í upphafi þingmannsferils síns. Ef við skoðum hugmyndafræðina á bak við stjórnlagaþingið byggist hún á því að kjósa fólk sem sækir umboð sitt með beinum hætti til þjóðarinnar til að vinna að endurskoðun á stjórnarskránni. Hér er það ekki gert. Hér eru handvaldir 25 einstaklingar sem hafa í raun ekki þá stöðu.

Kosið var til stjórnlagaþings. Þær kosningar eru ógildar. Hv. þingmaður eyddi að vísu nokkrum tíma af ræðu sinni og andsvörum áðan í að tala niður niðurstöðu Hæstaréttar, að mér fannst, með því að tala um að það væri úrskurður. Þá var gripið fram í og sagt að dómararnir hefðu ekki verið í skikkju, það allt saman gerði það að verkum að þetta væri kannski ekki svo merkileg niðurstaða.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er hún þá að segja að kosningarnar hafi ekki verið ógildar, að þær séu bara gildar eftir sem áður? Ég er ósammála því. Ég vísa m.a. í orð Eiríks Tómassonar prófessors sem sagði að það væri í raun og veru enginn munur þarna á. Það er enginn ágreiningur um hvort menn vilja endurskoða stjórnarskrána. Ágreiningurinn kann að felast að einhverju leyti í inntakinu en það er enginn ágreiningur um hitt. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að það sé fullur vilji af hálfu okkar sjálfstæðismanna að fara í endurskoðun á stjórnarskránni. Það sem er alvarlegt núna er að vinnan við það hefst í miklum ágreiningi. Það er ekki ágreiningur um inntakið í stjórnarskránni, það er ágreiningur um formið. Það er í fyrsta skipti sem það gerist og það lofar ekki góðu um framhaldið.