139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir spurningarnar en þó einkum þann sérstaka úrskurð sem ég tel að hljóti líka að vera nauðsynlega réttur, að hér í stólnum standi ungur maður, því að það er auðvitað rétt. Það er ekki spurning um ár heldur andlegt atgervi og sókn til fræða og aukins þroska í lífinu. Hér stendur ungur maður og þessi ungi maður getur svarað eftirfarandi: Já, hann styður þingsályktunartillöguna. Já, hann vill láta breyta stjórnarskránni og telur mikla þörf á því. Ég er þó ekki viss um að það séu sömu breytingarnar og hv. þm. Pétur Blöndal stendur fyrir og kannski ekki í sömu köflunum, en það hljótum við að ræða síðar, t.d. þegar við fáum inn tillögur stjórnlagaráðsins sem ég vona að verði sett á fót.

Ég tel að úrskurður Hæstaréttar hafi verið fullnustaður, ef svo má til orða taka, með því að stjórnlagaþingið sem gert var ráð fyrir að lögin framleiddu kemur ekki saman. Lögin verða felld úr gildi og í framtíðinni verður kosningum hagað með hliðsjón af ábendingum Hæstaréttar. En ég tel líka að Alþingi sé í sínum fulla rétti gagnvart Hæstarétti, gagnvart lögunum og stjórnarskránni að skipa sér til ráðuneytis þá 25 sem enginn hefur efast um að hefðu hlotið kjör ef þau atriði sem Hæstiréttur benti á hefðu verið í lagi.

Ég get hætt hér enda erum við ungir menn ekki eins málugir og þeir hinir eldri sem meiri þroska hafa og lengri reynslu af þingstörfunum og breytingum á stjórnarskrá.