139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:15]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að almennt hefur umræðan í samfélaginu eftir að úrskurðurinn var birtur verið á þann veg að ekkert bendi til að svindlað hafi verið í kosningunum. Það finnst mér mikið grundvallaratriði. Ég get ekki sannað þetta en ég heyri að hv. þingmaður deilir þeirri skoðun að svo hafi ekki verið, að öllum líkindum. Fólkið sem þarna var kjörið hefur þó þessa niðurstöðu á bak við sig. En Hæstiréttur gerir athugasemdir við ákveðna annmarka og flokkar þá í annmarka og alvarlega annmarka. Ég skil Hæstarétt að vissu leyti því Hæstiréttur hugsar að sjálfsögðu til framtíðar og vill setja mjög skýrar leikreglur. Það er því kannski ekkert skrýtið að hann komist að þessari niðurstöðu. En af því að ekki var svindlað, að öllum líkindum ekki, og af því að tillögurnar eru ráðgefandi og koma hingað inn hvort eð er og þetta er orðin nefnd út í bæ, ef svo má segja sem þó 84 þúsund manns tóku þátt í að velja, þá tel ég að okkur sé stætt á því að skipa þetta ráð.

Ég velti því hins vegar fyrir mér við þetta tækifæri hvort einhverju breytti ef þessir 25 væru skipaðir í þetta ráð og við bættum við sjö manns. Þá væri þetta ekki alveg sama fyrirbærið. Færum við þá eitthvað minna á skjön við Hæstarétt að mati t.d. hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar?