139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:35]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil í fyrsta lagi og í fullri vinsemd leiðrétta hv. þingmann þegar hann segir að við séum stjórnarskrárgjafinn, „við“ í merkingunni Alþingi Íslendinga saman, því að Alþingi Íslendinga er ekki stjórnarskrárgjafinn á Íslandi, það er ekki þannig. Stjórnarskrárgjafinn er þjóðin sem tekur þátt í breytingum á stjórnarskránni í almennum kosningum eftir að þingið hefur samþykkt tillögu um þær breytingar og staðfest þær eftir nýjar kosningar. Það er mér vitanlega talið jafngilda því í lögspeki að það sé þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn og ekki þingið og það er mjög mikilvægt, það er mjög mikilvægur þáttur í stjórnkerfi okkar.

Ég fagna því að þingmaðurinn, þrátt fyrir andstöðu hans við þessa þingsályktunartillögu, segir hér í ræðustólnum, að það sem flutningsmenn leggja til sé löglegt. Það er löglegt, forseti, það er löglegt. Og ég endurtek: Það er löglegt. Þetta stendur gegn því sem aðrir talsmenn Sjálfstæðisflokksins í umræðunum í dag og fyrri daga hafa sagt. Það þarf ekki annað en að rifja upp ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, ágæts þingmanns, utan dagskrár í fyrradag þar sem hún mótmælti því sérstaklega að málið væri tekið á dagskrá þingsins þar sem það væri óþingtækt. Óþingtækt, hvað þýðir það? Það þýðir að það sé kolólöglegt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur því skipt um skoðun ef marka má ummæli formanns þingflokksins áðan og það er ánægjulegt. Nema hér sé uppi ein af mörgum skoðunum í Sjálfstæðisflokknum sem ekki virðist vera sammála um neitt annað en að vera á móti þingsályktunartillögunni því að í skammri áheyrn minni hér í dag kom Ragnheiður Elín Árnadóttir með fjórðu eða fimmtu tillöguna um það hvað ætti að gera í stöðunni í staðinn fyrir þá þingsályktunartillögu sem hér var rædd. (Forseti hringir.) Ég skal fara yfir það í seinna andsvari hverjar aðrar tillögur voru í því efni.